BANDkorn.jpg

HARPA ÞORVALDSDÓTTIR

söngur & píanó 

Harpa útskrifaðist  með masterspróf í óperusöng frá tónlistarháskólanum Mozarteum í Salzburg í Austurríki vorið 2011 og starfar sem tónmenntakennari við Laugarnesskóla í Reykjavík. Hún var meðlimur í hljómsveitinni Groundfloor og djass kvartettinum SoundPost. Hún gaf út sólóplötuna Embrace árið 2015.

SIGMAR ÞÓR MATTHÍASSON

kontrabassi

 

Sigmar hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil. Hann lauk framhalds- og burtfararprófi frá jazzdeild Tónlistarskóla FÍH árið 2012 og haustið 2013 hóf hann framhaldsnám við tónlistardeild hins virta bandaríska háskóla The New School í New York borg í Bandaríkjunum. Þaðan útskrifaðist hann með láði vorið 2016 með BFA gráðu í jazz- og nútímatónlist. Sigmar hefur samið og útsett verk m.a. fyrir Stórsveit Reykjavíkur og hefur leikið með mörgum af helstu jazz- og popplistamönnum landsins. Í september 2018 gaf Sigmar út sína fyrstu sóló plötu, sem ber heitið Áróra, en hún hlaut tvennar tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna í flokki jazz- og blústónlistar árið 2019.

GUÐMUNDUR ATLI PÉTURSSON

 mandólín

Guðmundur hefur starfað með blágresissveitinni Illgresi, ásamt þáttöku í ýmsum verkefnum svo sem hljóðfæraleik á upptökum og tónleikum með Baggalúti, Brother Grass, Krumma og fleirum.

JÓHANN INGI BENEDIKTSSON

gítar  & söngur

 

Jóhann útskrifaðist með framhaldspróf í gítarleik frá tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar vorið 2006 og nam í kjölfarið skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2015. Hann er í masters námi í söng og hljóðfærakennslu við Listaháskóla Íslands og starfar sem tónlistarkennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hann var meðlimur hljómsveitarinnar Kamp Knox sem gaf út plötuna A Tad ´65 árið 2005.

Brek var stofnuð haustið 2018. Meðlimir sveitarinnar hafa síðan þá leitast við að finna sinn rétta hljóm og gefið sér tíma í þá vinnu.

Áhersla er á að tvinna saman hinum ýmsu áhrifum frá mismunandi stílum þjóðlaga- og dægurtónlistar. Einnig reynir sveitin að finna nýjar og spennandi leiðir við notkun hljóðfæranna til að skapa grípandi og þægilega stemningu, en jafnframt krefjandi á köflum. Lög sveitarinnar eru sungin á íslensku en hún leggur áherslu á að nota fjölskrúðugt orðbragð og nýta þannig hinn mikla og fallega orðaforða sem íslenskan hefur upp á að bjóða.  Lög hljómsveitarinnar sækja innblástur sinn meðal annars í íslenska náttúru og veðrabrigði.  

 

Áhrif tónlistarinnar koma úr ýmsum áttum en Brek vill leitast við að tvinna þeim saman í sinn hljóðheim og leitast þannig við að brjóta niður múra á milli tónlistarstefna ásamt því að tengja íslenskan þjóðlagaarf við aðrar tegundir þjóðlagatónlistar.  Íslenska texta og raddir í bland við samspil rythmísks og dínamísks samtals hljóðfæranna notar Brek til að drífa tónlistina áfram.